BM Vallá leggur mikinn metnað í að framleiða og bjóða upp á gæðavörur fyrir íslenskan byggingariðnað. Hluti af vöruframboðinu kemur frá þýska framleiðandandum Sto, sem sérhæfir sig í framleiðslu og þróun á múrvörum og kerfislausnum fyrir mannvirki innanhúss og utan.
Nýverið hélt BM Vallá fræðslufund í samstarfi við Sto Scandinavia AB um fyrirbyggjandi lausnir til að auka endingu steypu og draga úr viðhaldskostnaði brúa og stærri mannvirkja. Sérfræðingur Sto, Kent Hankvist, hélt erindi um þær vörur og aðferðir sem fyrirtækið býður upp á, ásamt því að Hafsteinn Guðmundsson, tæknilegur múr- og múrkerfaráðgjafi BM Vallár, tók þátt í fundinum.
Eykur líftíma og dregur úr viðhaldsþörf
Brýr eru mikilvægar grunnstoðir í hverju samfélagi og gegna stóru hlutverki í vegakerfinu. Hérlendis eru brýr gjarnan steinsteyptar og þar sem ýmsir hlutar brúarinnar verða fyrir ágangi vatns, salts og koltvísýrings er nauðsynlegt er að vernda brýrnar með því að setja rétt ílagnar- eða viðgerðarefni, húðun og yfirborðsvörn á mannvirkið.
Yfirborðsvörn sem verndar steypuna
Með sérstakri sílan yfirborðsvörn (í vökva, gel- eða kremformi) fyrir brýr sem hefur þann eiginleika að það gengur djúpt inn í steypuna er hægt að vernda steypuna gegn kolsýringu og uppsöfnun. Það gerir það einnig að verkum að steypan þornar hraðar eftir rigningu og bleytu. Að auki hefur það áhrif á að salt, eftir söltun á vegakerfinu, kemst síður inn í steypuna með ídrægni eða í gegnum „micro“ sprungur og varnar því að járnagrindin tærist. Þá er hægt að vernda mannvirkið með sérstakri sementsblandaðri húðun fyrir ágangi klóríðs og koltvísýrings.
Burðarþolsvottað viðgerðarefni
Sérstakt burðarþolsvottað viðgerðarefni/kerfi var kynnt til sögunnar sem kemur bæði sementsbundið, epoxý og með koltrefjalausnum og má nota til viðgerða á steyptum súlum, sökklum, kantbitum og akbrautum.
Það voru áhugasamir fulltrúar Vegagerðarinnar og helstu verkfræði- og ráðgjafarstofa landsins sem sóttu fundinn og sköpuðust góðar umræður í lok hans. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Vegagerðarinnar og færum við þeim bestu þakkir fyrir samstarfið.
Nánari upplýsingar um vörurnar og þjónustuna veitir Hafsteinn Guðmundsson.
hafsteinn@bmvalla.is