Vegferðin að kolefnishlutleysi

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu. Mynd: Sigurjón Ragnar. 

Við höfum sett okkur það markmið að vera með kolefnishlutlausa starfsemi árið 2030 og sögðum frá vegferð okkar í þá átt á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar. Yfirskrift loftslagsfundarins í ár var „Kolefnishlutleysi 2030 – Hvernig?“ og á fundinum fluttu meðal annars borgarstjóri, umhverfisráðherra og fulltrúar fyrirtækja sem vinna að því að loftslagsvænni lausnum. Fulltrúi Hornsteins, og dótturfélaganna BM Vallá, Björgunar og Sementsverkesmiðjunnar, Sirrý Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála, var með erindi og sagði frá helstu verkefnum, þáttaskilum, áskorunum og árangri sem fyrirtækin vinna að.

Erindi um vistvæna steypu

Meðal þess sem kom fram í máli Sirrýjar var að nú þegar er búið að kortleggja um 80% af þeirri vinnu sem þarf að fara í til að ná kolefnishlutleysi og unnið er að lausnum til að ná hinum 20% sem eftir standa. „Vistvæn steypa er forgangsverkefni BM Vallár þegar kemur að loftslagsvænni vörum, enda er steypa eftirlætis byggingarefni landsins og um 70% bygginga byggðar með steypu. Steypa er í grunninn einföld vara með sandi, grjóti, vatni og sementi og þar af ber sementshlutinn ábyrgð af um 90% kolefnislosunar þess. Það er því mikilvægt að finna leiðir til þess að draga úr magni sements í steypuuppskriftum og finna leiðir til að nota önnur efni.“ sagði Sirrý. Nefndi hún einnig áhugavert nýsköpunarverkefni þar sem verið er að skoða notkun á innlendri mélu í stað sements.

Horfa má á upptöku frá fundinum á vefnum og byrjar erindi Sirrýjar á mínútu: 2:55:30.

Sirrý Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteini, hélt erindi á loftslagsfundinum. Mynd: Sigurjón Ragnar.

Samkomulag um loftslagsyfirlýsingu undirritað

Á loftslagsfundinum skrifaði Þorsteinn Víglundsson, forstjóri, undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um að Hornsteinn og dótturfélög myndu draga úr losun og úrgangi og birta opinberlega gögn um þá vinnu. Með undirskrift að samkomulaginu bættist Hornsteinn í hóp rúmlega 100 fyrirtækja landsins sem eru aðilar að Festu, miðstöð um sjálfbærni.