Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, móðurfélag BM Vallár, og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík hafa undirritað samstarfssamning um starfsnám Hlyns Loga Ingólfssonar, lokaársnemanda í hagfræði og fjármálum. Hlynur hefur starfað hjá BM Vallá síðustu sumur og hefur því góða innsýn í starfsemi fyrirtækisins. Starfsnám á vegum háskólans er mikilvægur hluti af náminu en í því fá nemendur dýrmæta þjálfun í að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni í atvinnulífinu undir leiðsögn færustu sérfræðinga.
„Ég sótti um þetta starfsnám því mér hefur alltaf liðið vel hjá Hornsteini og langaði að læra meira um reksturinn. Ég hef unnið á hellulager BM Vallár síðustu þrjú sumur þannig sú reynsla mun hjálpa mér í starfsnáminu þar sem ég kem til með að kostnaðargreina eina af framleiðslulínum fyrirtækisins.“ segir Hlynur aðspurður um ástæður þess að hann valdi starfsnám hjá BM Vallá, en hann stefnir á starf í fjármálageiranum eftir útskrift.
Hlynur mun sinna kostnaðargreiningu í tengslum við framleiðslu- og birgðamál en verkefnið kemur meðal annars til með að nýtast í tengslum við valkostagreiningu og endurstaðsetningu á starfsemi BM Vallár. Hlynur mun vinna undir handleiðslu Andra Geirs Guðjónssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, og Benedikts Bjarnasonar, framkvæmdastjóra flutningssviðs. „Það er afar ánægjulegt að geta stutt við bakið á háskólanemum með leiðsögn í raunverulegu verkefni og hlökkum við til samstarfsins með Hlyni.“ segir Andri Geir aðspurður um starfsnámið sem felur í sér um 150 klst. vinnuframlags undir handleiðslu umsjónarmanna.
Eins og fram kemur á vef HR er markmið starfsnáms að tryggja að námið sé í takt við þarfir atvinnulífs og samfélags hverju sinni og til að undirbúa nemendur sem best fyrir þátttöku í atvinnulífinu og gera þá eftirsóknarverðari starfskrafta þegar þeir útskrifast.