Samstarf um Kynslóð jafnréttis

UN Woman og Hornsteinn
Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, fyrir hönd dótturfélaga, hefur gert tveggja ára samstarfssamning við UN Women á Íslandi (UNWÍ) í tengslum við jafnréttisátakið Kynslóð Jafnréttis. Samstarfið felst í því að Horsteinn styrkir starf UNWÍ sem miðlar upplýsingum út frá málefnasviðum samtakanna. Markmið með samstarfinu er að stuðla að menningu jafnréttis innan móður- og dótturfélaga, og í samfélaginu í heild, með þátttöku alls starfsfólks. Jafnréttisátak UNWÍ rýmar vel við áherslur Hornsteins og dótturfélaga um jafnrétti og að allt starfsfólk skuli njóta jafnra launa fyrir jafnverðmæt störf. Hvers konar mismunun er óheimil og styður jafnlaunavottun fyrirtækjanna skv. ÍST 85:2015 við þær áherslur.

Fræðsla undirstaða framfara

UN Women á Íslandi mun í þeim tilgangi veita fræðslu sem snýr m.a. að því hvernig Hornsteinn getur haft áhrif á kynjajafnrétti með starfsemi sinni. Áhersla verður lögð á að ná til karlkyns starfsmanna í fyrirtækinu og hvetja þá til þátttöku í aðgerðum sem miða að því að jafna hlut kynjanna.

„Það er afar ánægjulegt að taka þátt í jafnréttisátakinu með UN Women enda höfum við sett okkur skýra stefnu um að jafna hlut kynjanna, bæði hvað varðar launajafnrétti en ekki síður til að auka hlut kvenna í starfsmannahóp okkar. Með samstarfinu bindum við vonir um að ná betra samtali og öflugri fræðslu um mikilvægi jafnréttis til að stuðla að framförum samfélaginu öllu til heilla.“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins

Um jafnréttisátakið Kynslóð Jafnréttis

Kynslóð Jafnréttis (e. Generation Equality) er fimm ára jafnréttisátak á vegum UN Women og er jafnframt stærsta jafnréttisátak sem UN Women hefur ráðist í. Meginmarkmið átaksins er að vinna að úrbótum á þeim sviðum þar sem hallar mest á konur og stúlkur.

UNWÍ setti fram skuldbindingu í þágu átaksverkefnisins, sem snýr að því að fá íslensk fyrirtæki til liðs við sig við að hraða fyrir breytingum á málefnum kvenna og stúlkna um allan heim, með því að styðja starf íslensku landsnefndarinnar fjárhagslega. 

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, og Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastjóri UN Women Íslandi, skrifuðu undir samstarfssamning.
Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, og Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastjóri UN Women Íslandi, skrifuðu undir samstarfssamning.