Nýsköpun tengt hringrásarlausnum

sirrý ósk bjarnadóttir

Hringrás í byggingariðnaði: erum við tilbúin í stökkið er yfirskrift CIRCON ráðstefnu sem fer fram í dag og er hluti af Iðnaðarsýningunni í Laugardalshöll. Sirrý Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðamála, mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni og fjalla um áherslur og verkefni sem Hornsteinn og dótturfélög vinna að varðandi hringrásarlausnir. Þar á meðal verður fjallað um hringrásarhúsið, endurnýtingu úrgangsstrauma, jarðefnagarðinn og þróunarverkefni tengt endurnýtingu í framleiðslu fyrirtækjanna. Þá mun Sirrý einnig fjalla um heildarstefnu í loftslagsmálum og hversu miklu máli rannsóknir skipta máli við val þeirra áherslna.

Sýning styrkhafa Asks

Samhliða sýningunni verður sýning frá verkefnum sem hafa hlotið styrk úr Aski í bás HMS á Iðnaðarsýningunni og verða tvö verkefni frá BM Vallá, hringrásarhagkerfi í steypu og possólana-efni frá Íslandi í sement, þar til sýnis og umfjöllunar.

Hringrásarhagkerfi í steypu

BM Vallá vinnur að nýsköpunarverkefni þar sem skoðað er með hvaða hætti er hægt að endurnýta og endurvinna afgangshellur frá fyrirtækinu og koma steinefnunum þannig aftur í hringrásina. Hellurnar eru brotnar niður í kornastærð 0-25mm og hellubrotin eru sett í steypuna, sem samsvarar 4% af heildarhlutfalli steinefna í viðkomandi steypugerð. Niðurstöður prófana hafa sýnt fram á að eftir 28 daga mátti sjá að C25 steypa með hellubrotum væri með styrk að meðaltali 32,9 MPa á meðan hefðbundin C25 steypa var 33,6 MPa. Ekki er um mikinn mun að ræða og því hægt að áætla að 4% hellubrot í steypugerð hafi lítil sem engin áhrif. Einnig voru gerðar frostprófanir og sívalningar settir í fjaðurstuðulsprófanir. BM Vallá heldur áfram að prófa sig áfram með hærra hlutfall hellubrota.

Íslenskt possólana-efni í sement

BM Vallá vinnur náið með fremstu vísindamönnum heims að þróun nýrra steypugerða til að draga úr notkun sements. Meðal þess sem hefur verið notað við góðan árangur sem íauka í sement er flugaska sem myndast við brennslu kola og tilheyrir flokki possólana-efni. Possólana-efni getur komið í stað ákveðins hluta af sementinu í steinsteypublöndunni án þess að það komi niður á styrk og þéttleika steypunnar. Metnaðarfullt nýsköpunarverkefni er í gangi þar sem verið er að skoða möguleika á að nota possólana-efni frá Íslandi sem íauka í sement. Fyrstu rannsóknir lofa góðu og benda til þess að hægt væri að lækka kolefnisspor steypunnar um allt að 20% samhliða því að gera sementsnotkun á heimsvísu umhverfisvænni.

Nýsköpunarverkefni á sýningu
Nýsköpunarverkefni á sýningu

Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinu streymi frá kl. 10-15:10 og hægt er að kíkja á Iðnaðarsýninguna í Laugardalshöll 31. ágúst til 2. september.