Annað árið í röð leggur BM Vallá hjálparsamtökunum UNICEF lið með fjárstyrk sem notaður er í neyðaraðstoð fyrir börn í heiminum. Fulltrúi frá UNICEF kom í heimsókn í vikunni og kynnti samstarfið fyrir starfsfólki fyrirtækisins og hvaða þýðingu það hefur fyrir skjólstæðinga þeirra.
Hjálparhella BM Vallá er samfélagssjóður sem hefur það að markmiði að leggja samfélagslegum verkefnum lið með fjárstyrkjum og veitir árlega styrki til fjölmargra verkefna, bæði til lengri og skemmri tíma. Viðskiptavinir BM Vallár gegna líka mikilvægu hlutverki, en án þeirra væri ekki hægt að veita slíka styrki, þar sem fjárupphæðir í Hjálparhellu BM Vallár taka mið af hlutfalli af heildarveltu fyrirtækisins.
Neyðarsöfnun vegna vannæringu barna
Það var fulltrúi UNICEF, Stefán Örn Gíslason, sem hélt áhrifamikla kynningu um samtökin og hlutverk þeirra. Monika Kata, mannauðssérfræðingur, sá um að þýða kynninguna yfir á pólsku fyrir stóran hóp pólskumælandi liðsmanna okkar. Í máli Stefáns kom fram að sögulegir þurrkar ríkja á horni Afríku, í bland við hækkandi kornverð, hafa gert það að verkum að fjöldi fólks er án öruggs aðgengis að hreinu vatni. Loftslagsbreytingar hafa einnig valdið uppskerubresti og ógna þar með fæðuöryggi. Vannæring barna er orðið alvarlegt vandamál á svæðinu en talið er að í þeim löndum sem hafa orðið verst úti verður barn alvarlega vannært á hverri einustu mínútu.
Jarðhnetumauk til lífsbjargar
Til að bregðast við þessum hamförum hefur UNICEF veitt þjónustu í forvörnum á upphafsstigum vannæringar barna og aukið aðgengi að næringarríku jarðhnetumauki sem er notað til að meðhöndla bráðavannæringu barna. Einn slíkur poki inniheldur 500 hitaeiningar og með þremur slíkum pokum á dag í fáeinar vikur geta vannærð börn náð fullum bata. Samstarf UNICEF og Hjálparhellu BM Vallá fellur undir þessa neyðarsöfnun og styrkurinn í ár gerir kleift að standa straum af kostnaði við um 113.000 poka af jarðhnetumauki.
Við þökkum UNICEF fyrir komuna og áhugaverðan fyrirlestur, en einnig þökkum við okkar góðu viðskiptavinum sem leggja málefni Hjálparhellu BM Vallár lið með kaupum á vörum frá fyrirtækinu og þannig verið öll Hjálparhellur!