Dagur Grænni byggðar var haldinn síðastliðinn föstudag og flutti Sirrý Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála, erindi en hún fer fyrir sjálfbærni og umhverfismálum hjá Eignarhaldsfélaginu Hornsteini. Fyrirlesturinn bar nafnið „Þegar núllið verður ætlunarverkið – vegferðin í átt að vistvænni steypuframkvæmdum.“ og fjallaði um þær fyrirætlanir, árangur og verkefni sem Hornsteinn og BM Vallá vinna að í tengslum við umhverfisvænni lausnir fyrir mannvirkjagerð.
Vistvænni steypuuppskriftir framtíðarinnar
Sirrý benti á að það væru mikil tækifæri fólgin í nýrri byggingarreglugerð um steypuflokka þar sem hægt verður að draga úr sementsmagni í steypuuppskriftum og minnka þannig kolefnisfótspor bygginga. BM Vallá hefur sett sér skýrt markmið um að bjóða upp á vistvænni steypu og sagði Sirrý frá þeim lausnum og verkefnum sem unnið væri að. „Steinsteypa er efnið okkar Íslendinga og stefnir BM Vallá að kolefnislausri framleiðslu á steinsteypu árið 2030. Við erum að vinna í mörgum spennandi verkefnum sem eiga eftir að leiða til sjálfbærra lausna fyrir íslenskan byggingariðnað.“ sagði Sirrý meðal annars í erindinu og bætti við „Framtíðin er í steypunni – við erum að þróa nýjar uppskriftir með íslenskum efnum sem draga úr sementsnotkun, við erum að virkja hringrásarhagkerfið með endurnýtingu á jarðefnum, við erum að styrkja steypuna með því að dæla í hana koltvísýringi frá iðnaði, við erum að þróa forsteyptar lausnir sem er hægt að taka í sundur og nýta aftur. Framtíðin verður steypt með vistvænum lausnum frá BM Vallá.“
Metnaðarfull markmið
Dagur Grænni byggðar er haldinn árlega meðal félagsmanna, en markmið samtakanna er að hvetja til sjálfbærrar þróunar byggðar til að skapa heilbrigt og sjálfbært, byggt umhverfi sem stuðlar að vellíðan fyrir alla. Metnaðarfull dagskrá fór fram frá kl.13-17 og fulltrúar frá fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum tóku til máls og sögðu frá þeim verkefnum og áherslum sem þau vinna að í tengslum við umhverfisvænni og sjálfbærari lausnir. Að auki var Græna skóflan afhent í fyrsta skipti, en það eru hvatningarverðlaun fyrir vistvæna mannvirkjagerð, og komu verðlaunin í hlut Reykjavíkurborgar fyrir leikskólann Brákarborg í Reykjavík að Kleppsvegi 150-152.
Það var auðheyrt að mikill kraftur og samhljómur er meðal fyrirtækjanna sem tóku þátt í deginum og mikill metnaður í þeim verkefnum sem unnið er að og er ætlað að stuðla að sjálfbærri framtíð byggingargeirans.
Takk fyrir frábæran og fróðlegan Dag Grænni byggðar!
Það var góð þátttaka á Degi Grænni byggðar sem fram fór í Iðnó, föstudaginn 30. september 2022. Mynd: Grænni Byggð.