Við fórum í afar ánægjulegt samstarf með Soffíu og Valda sem búa, ásamt tveimur börnum sínum og hundinum Mola, í fallegu einlyftu einbýlishúsi á Álftanesi. Húsið var byggt árið 1975, er með stórum ræktuðum garði, palli og stórri malarinnkeyrslu sem er um 220 fm. Hjónin hafa verið dugleg í framkvæmdum gegnum tíðina og hófust handa nýverið við að endurhanna innkeyrsluna og svæðið fyrir framan hús þar sem hellur, hleðslusteinar og pergóla gegna lykilhlutverki.
Þriggja steina kerfi í innkeyrslu
Soffía og Valdi höfðu nokkuð skýra sýn varðandi framkvæmdirnar, hvað þau vildu leggja áherslu á og hvernig endurhanna mætti svæðið til þess að það myndi nýtast fjölskyldunni betur. Þau fengu ráðgjöf frá landslagsarkitekt sem teiknaði upp svæðið og lagði til ákveðnar leiðir. Einnig notuðu hjónin teikniforritið frá BM Vallá til að sjá hvernig ólíkar hellutegundir kæmu út við innkeyrsluna. Eftir að hafa lagt á ráðin, planað og pælt hófust framkvæmdir í júlí 2023.
Innkeyrslan við húsið er í stærra lagi og þar eru næg bílastæði. Þau völdu Rómarstein fyrir innkeyrsluna en hann er mjög stílhreinn, með léttu yfirbragði og kemur í þriggja steina kerfi. Planið og blómabeðin voru síðan afmörkuð með svörtum Óðalskantsteini.
Voldugur hleðslusteinn
Meðfram húsinu var langur steyptur veggur sem var fjarlægður og í staðinn reistur fallegur hleðsluveggur með lýsingu ásamt timburklæðningu að ofan. Óðalshleðslusteinn varð fyrir valinu en með honum er auðvelt að búa til frístandandi veggi og upphækkuð blómabeð.
Glæsileg blómabeð við húsið setja skemmtilegan svip á umhverfið enda leggja húseigendur mikinn metnað í að hafa garðinn, tréin og runnana falleg og snyrtileg. Nokkur eldri tré þurftu að víkja samkvæmt hönnuninni en sum þeirra standa áfram og sóma sér vel í nýju blómabeðunum. Raflagnir og tenglar voru settir upp í beðin til að auðveldara væri að setja upp lýsingu, jólaljós og jafnvel að hlaða bíla. Þá var vatnskrani settur upp við garðinn til að auðvelda aðgengi að vökvun.
Ný ævintýraverönd
Svæðið fyrir framan húsið var ekki mikið notað, það var frekar lokað og með grindverki sem var fjarlægt til að opna svæðið. Þetta rými býður upp á ýmsa spennandi möguleika og langaði Soffíu og Valda að búa til skemmtilegt svæði fyrir fjölskylduna sem allir geta notið. Úr varð að stækka svæðið, búa til hellulagða verönd og byggja pergólu út frá skyggni hússins sem myndi ramma rýmið vel inn og gera það notalegt. Veröndin kemur alveg ótrúlega vel út og hefur aukið mikið notagildi lóðarinnar.
Fjórfalt sorptunnuskýli
Sorptunnuskýli eru hin mestu þarfaþing á hverju heimili enda hlutverk þeirra að verja tunnurnar fyrir veðri og vindum, ekki veitir víst af þegar tunnunum fjölgar við heimili í takt við tíðarandann og áherslur tengt flokkun. Fjórfalt sorptunnuskýli varð fyrir valinu og voru hurðaropin lökkuð með svartri pallaolíu í takt við annað timbur á svæðinu. Það þarf öfluga krana og flutningabíl til að flytja heilsteypt skýlin á leiðarenda.
Eins og sjá má á fyrir og eftir myndunum er gríðarmikil breyting á ásýnd hússins og ný svæði sem nýtast fyrir gæðastundir hafa litið dagsins ljós. Við óskum Soffíu, Valda og börnunum til hamingju með þetta glæsilega verk og einstaklega ánægjulegt samstarf.
Þess má einnig geta að Gullverk verktakar sáu um flestar verklegar framkvæmdir við húsið, þ.m.t. jarðvegsskipti, byggingu pergólu, hellulögn og reisingu hleðsluveggjar. Framkvæmdirnar tóku um 7 vikur.
Soffía hjá Skreytum hús hefur einnig gert verkefninu skil á vefsíðu sinni og þar má lesa nánar um framkvæmdirnar í heild sinni.