Í dag var úthlutað úr samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallár og fengu átta verkefni fjárstyrk úr sjóðnum, en heildarstyrkupphæð til verkefnanna var 2.300.000 kr. Hjálparhella veitir styrki til fjölbreyttra samfélagsverkefna sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við fjölbreytt verkefni á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfa, góðgerðarmála, umhverfismála, sjálfbærni og nýsköpunar. Að auki er horft til verkefna sem samræmast stefnu fyrirtækisins, gildum og þeim heimsmarkmiðum sem hafa verið sett í forgang og lögð sérstök áhersla á.
Umsóknir er bárust í samfélagssjóðinn voru á fjórða tug talsins. Styrkþegar verkefnanna komu saman á dögunum og tóku á móti fjárstyrknum, blómum og Hjálparhellu í formi konfektkassa.
Þau verkefni sem hlutu fjárstyrk árið 2023 voru.
- Mæðrastyrksnefnd
Fjárstyrkur til að standa straum af kostnaði á jólagjöfum handa börnum á aldrinum 9-17 ára. Valdar eru jólagjafir í samráði við foreldra barnanna.
- Ástráður
Fjárstyrkur til að fjármagna samfélagsmiðlaherferð sem er í vinnslu í samstarfi við Embætti Landlæknis. Herferðin samanstendur af myndböndum, sem fara á samfélagsmiðla, og plakötum, sem fara í framhalds- og háskóla. Tilgangur herferðarinnar er að fræða ungt fólk um mismunandi kynsjúkdóma, helst klamydíu og lekanda, og segja frá því hvernig það er að fara í kynsjúkdómatékk.
- Stelpur rokka!/Læti!
Framtak sem með starfi sínu stuðlar að jafnrétti kynjanna og valdeflingu þátttakenda með tónlistarkennslu og fræðsluerinda um ýmis samfélagsleg málefni. Þátttakendur tilheyra jaðarsettum kynjum í tónlist (stelpur, stálp, trans strákar og intersex krakkar) og nær æskulýðsstarfið yfir aldurshópinn 8-18 ára. Fjárstyrkurinn kemur til með að standa straum af kostnaði við þjálfunarhelgar sem gera sjálfboðaliða framtaksins betur í stakk búna til að takast á við áskoranir í tengslum við störf sín.
- Samhjálp
Fjárstyrkur í Jólamáltíðasöfnun Kaffistofu Samhjálpar. Markmið verkefnisins er að létta á álagi kaffistofunnar og tryggja það að fólk í neyð, sem ekki hefur efni á mat, geti borðað heitar máltíðir áfram.
- Spjöllum með hreim
Meginmarkmið Spjöllum með hreim er að skapa ókeypis vettvang fyrir fullorðna einstaklinga af erlendum uppruna til að æfa sig að tala íslensku í öruggu umhverfi undir leiðsögn reyndra kennara. Fjárstyrkurinn fer til að standa straum af kostnaði viðburða sem þátttakendur sækja frítt.
- Bæjarhlaup Grundarfjarðar
Markmið verkefnis er að þétta öflug bæjarfélag saman við jákvæða afþreyingu sem í þessu tilfelli felst í að hlaupa og hafa gaman. Fá kynslóðir til að vera saman en eldri borgarar og krakkar voru áberandi í hlaupinu árið 2023. Leyfa fólki að upplifa hvað það er gaman að hreyfa sig í góðra vina hópi og hvað hvatning skiptir miklu máli. Fjárstyrkurinn er notaður í tengslum við kostnað við upphitun tengt hlaupinu og leigu á hljóðkerfi. - Líf styrktarfélag
Líf styrktarfélag stendur nú fyrir söfnun á nýjum þráðlausum nema fyrir fóstursírita og fer fjárstyrkurinn upp í þá söfnun. Neminn gefur fæðandi konum kost á að vera á hreyfingu og í baði sé áhugi fyrir því, en sýnt hefur verið fram á að hreyfing móður eykur líkur á að fóstrið gangi eðlilega niður í grind móður og eykur þar með líkur á eðlilegri fæðingu. Neminn er mikilvægt hjálpartæki til að greina óeðlilegan fósturhjartslátt frá eðlilegum fósturhjartslætti og grípa til viðeigandi ráðstafana ef hætta skapast.
- Kraftur | Lífið er núna
Tvisvar á ári býður Kraftur krabbameinsgreindum félagsmönnum sínum auk eins aðstandanda upp á að Endurnærandi Lífið er núna helgi. Farið er út á land í tvær nætur þar sem lögð er áhersla á uppbyggjandi dagskrá bæði andlega og líkamlega. Það er öllum frjálst að haga dagskránni eftir því sem hentar. Boðið er upp á endurnærandi mat og fólk hvatt til að njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar. Boðið er upp á heilnæma hreyfingu, hugleiðslu og uppbyggjandi fyrirlestra. Helgin er þátttakendum að kostnaðarlausu og fer fjárstyrkurinn upp í kostnað við Lífið er núna helgi.
Þessi átta verkefni bættust því í hóp verkefna sem Hjálparhella BM Vallár veitir fjárstyrki til. Einnig er fjárstyrkur veittur til samfélagsverkefna sem eru með lengri tímaramma eins og Unicef á Íslandi, Römpum upp Ísland og UN Women.
Við óskum öllum styrkhöfum hjartanlega til hamingju með fjárstyrkinn og megi þeim vegna vel með samfélagsverkefnin. Einnig þökkum við öllum þeim sem sóttu um í Hjálparhellu fyrir umsóknirnar og minnum á að búið er að opna fyrir umsóknir næsta árs.